Upplýsingar fyrir aðstandendur lungnasjúklinga
Að eiga notalegar samverustundir með lungnasjúklingi
Það er ekki auðvelt að átta sig á hvernig það er að lifa með erfiðan lungnasjúkdóm þar sem það sést ekki alltaf utan frá.
Sjúklingur getur verið slæmur þó að hann sé ekki móður eða í andnauð. Ekki er óalgengt að hann verði mjög kraftlaus og slappur sem stafar af því að líffæri og vöðvar fá ekki nægjanlegt súrefni. Þess vegna er mikilvægt að sýna tillitsemi og huga að því að aðstæður séu sem ákjósanlegastar fyrir sjúklinginn.
Hér fyrir neðan fylgja upplýsingar og ráð sem geta komið sér vel við ýmsar aðstæður.
1. Snögg umskipti og „slæmir dagar“
Sjúklingar eru oft viðkvæmir fyrir veðurbreytingum, s.s. röku lofti, roki og hitabreytingum ásamt loftmengun. Jafnframt getur umferðamengun orsakað skyndilega versnun. Þá eiga sjúklingar stundum „slæma daga“ þar sem öndun verður léleg án fyrirvara. Afleiðingarnar geta orðið þær að sjúklingurinn verður að aflýsa heimsókn eða öðrum viðburðum með stuttum fyrirvara. Ekki ber að taka því svo að sjúklinginn langi ekki að mæta heldur eru lífsaðstæður þannig fyrir marga með slæman lungnasjúkdóm.
2. Ferðalög
Margir sjúklingar upplifa að allir kraftarnir fari í að bíða, sérstaklega þegar kalt er eða loftið rakt. Aðstoð við að stytta bið og hraða flutningum er því vel þegin. Sjúklingurinn getur því notið samverustundarinnar betur.
3. Gott aðgengi
Það er kvíðvænlegt, fyrir sjúkling með slæman lungnasjúkdóm, að takast á við brekkur/ langa hallandi göngustíga og stiga/tröppur. Þess vegna er æskilegast að hittast þar sem aðgengi er þægilegt eða lyftur í húsum.
4. Kertaljós, reykur, ilmvötn og sterk lykt
Reykur og lykt geta haft gífurleg áhrif á öndun sjúklingsins m.a. valdið því að lungnaveggirnir dragast saman og kallað fram hósta og mikil óþægindi. Reynið að halda því frá sjúklingi og/eða lofta vel út.
5. Margmenni
Ef margir eru samankomnir í litlu rými getur það skapað kvíða. Tilfinningin fyrir því að eiga erfitt með að ná andanum getur leitt til andnauðar. Nóg pláss og gott loft er æskilegt fyrir sjúklinginn.
6. Aðgangur að rólegum stað
Athuguð hvort það sé mögulegt fyrir sjúklinginn að fá næði til að hvíla sig og taka lyfin sín.
7. Aðgangur að snyrtingu
Það er algjör nauðsyn að auðvelt sé fyrir þann sjúka að komast á snyrtingu þ.e.a.s. á sömu hæð og þið eruð stödd.
8. Hóstakast
Algengt er að lungnasjúklingum líði illa yfir að fá hóstakast innan um aðra. Vinsamlega sýnið þolinmæði því sjúklingur getur ekki stjórnað hóstanum.
9. Öndunarörðugleikar
Fyrir suma getur það að borða og tala valdið áreynslu við öndun. Vinsamlega gefið viðkomandi þann tíma sem hann þarfnast.
Heimildir: Danmarks lungeforening: www lunge.dk