Póstlisti SLS

Póstlisti SLS

 
Miðvikudagur, 28. september 2016 15:57
Hjartanæla Hjartaheilla

Hvetjum alla til að styrkja Hjartaheill og kaupa hjartanæruna hjá þeim
http://www.hjartaheill.is/

 

 

 

unnamed

 

 
Þriðjudagur, 20. september 2016 21:14
Sagan mín

Síðan ég tók við formennsku Samtaka lungnasjúklinga hef ég oft verið beðin um að deila sögu minni og hér kemur hún í stuttu máli fyrir þá sem hafa áhuga.

 

Ég heiti Guðný og ég er 44 ára

Ég er móðir, eiginkona, dóttir, systir og ég er líffæraþegi.
Þann 24. ágúst 2014 fór ég í tvöfalda lungnaígræðslu á Shalgrenska sjúkrahúsinu í Gautaborg.

 

Veikindasagan mín byrjar þegar ég er 35 ára og fer að finna til vaxandi mæði og vanlíðan.
Það kom í ljós eftir töluverðar rannsóknir að ég var með sjúkdóm sem heitir Nonspecific Interstitial Pneumonia eða ósértæk lungnatrefjun.
Þessi sjúkdómur þýddi það að það mynduðust bandvefir og bólgur á lungunum á mér sem komu í veg fyrir að loftskiptin í líkamanum gætu átt sér stað á eðlilegan hátt. 
Með tímanum fékk líkaminn minn alltaf minna súrefni og á endanum varð ég súrefnisháð.

 

Fyrstu árin var reynt að halda þessu í skefjum með lyfjagjöfum og var ýmislegt prófað sem gekk ágætlega framan af. Það var svo í enda árs 2011 að það fór að halla undan fæti í þessum veikindum hjá mér. Lyfin sem voru notuð til að halda veikindunum í skefjum hættu að virka og sjúkdómurinn ágerðist. 
Um það bil ári seinna eða í enda ársins 2012 er fyrst talað við mig af einhverri alvöru um að ég þyrftir að fara í lungnaígræðslu enda útséð um að þetta færi bara á einn veg ef ég fengi ekki ný lungu. 

Lungnaígræðsla er svo sannarlega langt og erfitt ferli og er aldrei notað nema sem síðasta úrræði og þá er búið að reyna allt annað. 
Síðasta spilið á hendi eins og einn læknir sagði einhverntímann við mig.

Eftir rannsóknir bæði hérna heima og á Shalgrenska sjúkrahúsinu í Gautaborg fór nafnið mitt fór á biðlistann eftir nýjum lungum þann 4.septermber 2013.

 

Aðfaranótt 8. janúar 2014 kom svo símtalið sem ég var búin að vera að bíða eftir. 
Það voru komin lungu! Ég trúði þessu varla! 
Ég og maðurinn minn fórum með sjúkraflugvél til Gautaborgar.
En þetta átti ekki að verða í það skiptið og stuttu eftir að við komum á sjúkrahúsið var mér sagt að því miður væru lungun sem ég átti að fá ekki nothæf til ígræðslu þannig að ekkert yrði af aðgerðinni í þetta skiptið.
Þvílíkt áfall! Ég brotnaði algjörlega saman saman og hágrét.
En þessu var ekki breytt og ég þurfti að fara heim aftur með ónýtu lungun mín og súrefnið.

Framundan voru mjög erfiðir tímar og ég var meira og minna á Borgarspítalanum og Reykjalundi eftir þessa ferð og fram á sumar. Ég var alveg hætt að geta gengið og var keyrð um allt í hjólastól. Ég þurfti 10-15 lítra af súrefni til að komast frá rúminu inn á klósett, gat ekki baðað mig sjálf, ekki greitt á mér hárið og ekki klætt mig. Erfiðast þótti mér samt að geta ekki verið heima. 
Ég var að tapa vitinu en yndislega fjölskyldan mín, vinir og frábæra starfsfólkið á A6 og Reykjalundi héldu í mér lífinu á þessum erfiða tíma.

 

Aðfaranótt 7. júní 2014 kom svo hið langþráða símtal í annað skipti og aftur fórum við til Gautaborgar með sjúkraflugvél. 
Eftir einhverja bið á spítalanum kom til mín læknir og ég sá það á henni hvað hún ætlaði að segja áður en hún sagði nokkuð.
Hún sagði mér að hægra lungað sem ég átti að fá væri ekki hæft til ígræðslu og þar sem ég þurfti 2 lungu yrði ekkert af aðgerðinni í þetta skiptið heldur. Ég trúði þessu varla!

Enn og aftur þurfti ég að fara heim með súrefnið og ónýtu lungun! Þessi ferð tók mjög á sálartetrið sem var nú ekki upp á sitt besta og var líka mjög erfið fyrir manninn minn sem mér fannst ekki auðvelt að horfa uppá því hann var algjörlega minn klettur í öllum þessum veikindum.
Svona veikindi eru nefninlega ekki bara erfið fyrir sjúklinginn sjálfan heldur líka alla hans fjölskyldu. 
Og áfram hélt biðin.

 

Aðfaranótt 24. ágúst 2014 kemur svo þriðja símtalið
Nú var kvíðinn orðin rosalegur og ég hugsaði með mér að ef ég yrði send heim í þriðja skiptið væri ég bara ekki viss um að ég gæti tekist á við það.
Mér fannst miðað við allt sem var búið að ganga á að það gæti það bara alveg gerst. 
En sem betur fer varð þetta mín lukkuferð og þennan dag fékk 2 ný lungu og nýtt líf.

 

Ég hef oft á þessum 2 árum sem liðnir eru frá aðgerðinni þurft að klípa sjálfa mig til að vera viss um að þetta sé raunverulegt og að þetta skuli í raun vera hægt. 
Ég fékk annað tækifæri í lífinu vegna þess að einhver einstaklingur ákvað að gerast líffæragjafi og fyrir það er ég og verð eilíflega þakklát. 
Á meðan ég fagna nýju lífi er einhverstaðar fjölskylda sem syrgir og ég hugsa oft til þeirra með miklum kærleika og þakklæti.

 

Með því að deila sögu minni langar mig að vekja fólk til umhugsunar um að taka afstöðu til líffæragjafar.
Á hverju ári eru 25-30 manns sem þarfnast líffæraígræðslu á Íslandi og það er mikill skortur á líffærum til ígræðslu. 
Hver líffærargjafi getur bjargað allt að 8 mannslífum og bætt lífsgæði annara. 

 

Ég er nokkuð viss um að flestir landsmenn myndu þiggja líffæri fyrir sig og sína nánustu ef þeir þyrftu á því að halda. 
Verðum við þá ekki að vera jafn viljug að gefa?

Komdu afstöðu þinni á framfæri
Ræddu við þína nánustu um afstöðu þína til líffæragjafar. 
Skráðu afstöðu þína á vef landlæknishttps://donor.landlaeknir.is/Home.aspx
Skildu ekki ástvini þína eftir með þessa erfiðu ákvörðun.

 

Líffæragjöf bjargar mannslífum

Tökum afstöðu!

sagan mn

Þessi mynd er svo tekin 09-09-2016

 

sagan mn 2

 
Mánudagur, 19. september 2016 18:23
Flensusprautan

Nú er hægt að fá flensusprautuna á öllum heilsugæslum.
Flensan er komin snemma í ár og við hvetjum alla til að fara og láta sprauta sig.

 

flu-shots-are-available-from-local-public-health-zgveua-clipart

 
Mánudagur, 19. september 2016 09:53
Opið hús í dag 19. september frá 16-18

Opið hús fyrir félagsmenn í dag milli 16-18
Væri gaman að sjá sem flesta

 

meeting-1002800 960 720

 
Mánudagur, 12. september 2016 09:52
Skrifstofutími samtakanna

Skrifstofan okkar verður því miður ekki opin í dag.

 

Hún verður annars opin alla mánudaga í vetur frá kl 16-18 og eru allir velkomnir þangað.

 

a3b0bb48c38129defcb9a16018bbc44e